Um Greenfit

Í hverju felst starfsemi Greenfit?

Þjónusta Greenfit miðar öll að því yfirlýsta markmiði okkar að efla heilsu og fjölga heilbrigðum æviárum. Við notum mælingar til að kortleggja heilsu og hjálpa viðskiptavinum okkar að finna tækifæri til bætinga og betri lífsgæða.

Við bjóðum einnig upp á ýmsar leiðir til að styðja við heilbrigðan lífsstíl.


Af hverju ákváðu þið að bjóða þessa þjónustu?

Við trúum því að allir eigi rétt á að fá eins miklar upplýsingar um eigin heilsu og hægt er. Aukið heilsulæsi og meðvitund um eigið heilbrigði mun að okkar mati skila sér í betri almennri lýðheilsu og meiri lífsgæðum meðal almennings. Eins hefur það ekki farið framhjá okkur frekar en öðrum að álag á hefðbundna heilbrigðiskerfið er mikið og fer vaxandi.

Við trúum því að með því að grípa fyrr inn í og stuðla að heilbrigðara líferni sé hægt að létta á með heilbrigðiskerfinu.

Get ég leitað til Greenfit ef ég hef einkenni sem benda til sjúkdóms?

Greenfit veitir ekki heilbrigðisþjónustu. Við tökum á móti heilbrigðu fólki sem langar til að fjölga heilbrigðum æviárum, stunda forvarnir og auka heilsulæsi sitt.

Ef eitthvað kemur óvænt í ljós í heilsumælingum sem bendir til ástands sem betur ætti heima í heilbrigðiskerfinu þá bendum við fólki á að leita til annarra en Greenfit. Starfsfólk Greenfit greinir ekki sjúkdóma né ávísar lyfjum.


Hver les úr niðurstöðum mælinganna?

Hjá Greenfit starfar hópur af fólki með margvíslega menntun, bakgrunn og reynslu. Sumir hafa menntun á sviði heilbrigðisvísinda (læknisfræði, hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun, næringarfræði). Aðrir hafa bakgrunn úr keppnisíþróttum, hreyfingu og þjálfun.

Enginn einn veit allt um heilsu og allir hafa eitthvað til málanna að leggja. Þess vegna leggjum við á það ríka áherslu að vinna sem teymi og leitum ráða hjá hvert öðru og setjum alltaf þarfir og óskir viðskiptavinarins í forgrunn. Sumir vilja ráðleggingar um æfingaálag í aðdraganda keppni á meðan aðrir eru að leita eftir ráðum við að komast af stað úr sófanum.

Við leggjum einnig mikla áherslu á að kenna þér að skilja þínar lykiltölur. Þannig er hlutverk okkar að hjálpa þér að skoða og skilja mælingar sem efla þig og hvetja til hollra lífshátta.


Má hver sem er panta mælingu á blóðgildum sínum?

Með aukinni tækni getur hver sem er nú til dags keypt sér ýmsar heilsumælingar án aðkomu fagfólks. Margir eru með úr sem mæla hreyfingu, svefn, tíðni öndunar, súrefnismettun og margt fleira. Blóðþrýsting geta allir mælt heima hjá sér með þar til gerðum mæli og síriti sem mælir blóðsykur allan sólarhringinn (í millifrumuvökva) fæst í næsta apóteki og heilsuræktarstöð. Einnig eru blóðmælingar öllum aðgengilegar í formi heimaprófa sem mæla allt frá járni og D vítamíni yfir í blóðsykur, blóðfitur, glútenóþol, ketóna og hormón.