Áhrif mataræðis og næringar á streitu


Streita er algengt fyrirbæri í nútíma samfélögum, þar sem gjarnan ríkir mikill hraði og álag. Öll höfum við upplifað aukna streitu á vissum tímabilum í okkar lífi en ef við erum undir miklu álagi í langan tíma  getur það sannarlega haft mikil áhrif á líkamlega og andlega heilsu okkar.

Þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum sem valda mikilli streitu, losar líkaminn okkar ákveðin hormón út í kerfið. Þessi hormón eru til dæmis kortisól og adrenalín en þessi hormón undirbúa líkamann undir átökin (fight or flight), ef svo má að orði komast. Þó svo að þetta varnarviðbragð líkamans geti komið að góðum notum í styttri lotum getur langvarandi krónísk streita leitt til fjölda alvarlegra vandamála, til dæmis verkja- og stoðkerfisvandamála, hjartasjúkdóma, kvíða og þunglyndis.

Það er kannski ekki alltaf gerlegt að losa okkur undan aðstæðum sem skapa álag og streitu en sem betur fer eru til ýmsar leiðir til þess að draga úr áhrifum streitunnar á okkur sjálf. Og með því að gera það erum við betur undirbúin að mæta þeim áskorunum sem verða á vegi okkar.

 

En hvaða þættir eru það sem draga úr streitu?

Þeir þættir sem geta dregið úr streitu og stuðla að líkamlegu og andlegu heilbrigði eru einna helst:

  • Mataræði og næring
  • Hreyfing
  • Svefn
  • Hugleiðsla, jóga og slökun
  • Samvera með öðru fólki
  • Útivera í náttúrunni
  • Tímastjórnun
  • Jákvæðni

 

Áhrif mataræðis og næringar á streitu

Eins og áður segir hefur mataræði og næring mikil áhrif á getu okkar til þess að standa undir miklu álagi og streitu. Þeim mun betur sem líkaminn okkar er nærður, þeim mun auðveldara er fyrir hann að verjast auknu álagi. Að sama skapi, þegar við borðum mikið af óhollri fæðu, sem veldur bólgum, hækkandi blóðsykri og auknu álagi á líkamann, verður þeim mun erfiðara að fást við utanaðkomandi áreiti.

Hér er það helsta sem þú þarft að hafa í huga þegar kemur að mataræði og næringu:

Blóðsykur: Matur sem inniheldur einföld kolvetni og mikinn viðbættan sykur getur haft miki láhrif á blóðsykurinn, þar sem hann hoppar upp í hæstu hæðir og tekur svo snarpa dýfu þar á eftir. Slíkt veldur streitu viðbragði í líkamanum. Með því að borða fæðu sem er rík af próteinum, trefjum og fitu, getum við haldið blóðsykrinum í meira jafnvægi og þannig dregið úr streitu.

Þarmaflóran: Áhrif þarmaflórunnar á líkamlega og andlega heilsu okkar eru gríðarlega mikil. Með því að halda þarmaflórunni í góðu jafnvægi getum við tryggt betri líðan og minni streitu. Mataræði sem er ríkt af gerjuðum mat er til þess fallið að bæta meltinguna og þarmaflóruna en þar má nefna sem dæmi jógúrt, kefir, súrkál, kimichi o.fl. Þá er hægt að taka inn góðgerla í formi bætiefna en allt þetta hjálpar til að viðhalda góðri meltingu og þar með draga úr streituáhrifum í líkamanum.

Magnesíum: Magnesíum finnst í grænu grænmeti, hnetum, fræjum og heilkorni, svo dæmi séu tekin. Magnesíum stuðlar að eðlilegri vöðva- og taugastarfsemi og getur hjálpað okkur að ná slökun. Skortur á magnesíum í líkamanum getur ýtt undir streitu og kvíða og því er mikilvægt að tryggja inntökku á magnesíum, annaðhvort úr fæðunni eða í formi bætiefna.

Omega 3: Jábbs, gamla góða lýsið. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi Omega-3 á heilsu okkar og þá sér í lagi andlega heilsu. Með því að fá nægt Omega-3 inn í kerfið okkar getum við dregið úr streitu og aukið vellíðan. Þessar einstöku fitusýrur má finna í feitum fisk, fræjum og hnetum.

D og B vítamín: Þessi vítamín leika mikilvæga rullu þegar kemur að streitustjórnun og viðhalda góðri andlegri líðan. Við Íslendingar fáum ekki mikið af blessaðri sólinni og þurfum því að gæta vel að inntöku á d-vítamíni. B vítamín má finna í heilkorni, eggjum, kjöti og mjólkurvörum.

Annað sem ber að hafa í huga: Borðaðu reglulega og skapaðu þér góðar matarvenjur þar sem þú borðar í núvitund. Leggðu áherslu á næringarríkan og hollan mat. Dragðu úr neyslu kaffi og áfengis, sér í lagi ef þú ert undir miklu álagi og streitu. Drekktu nóg af vatni og ekki gleyma steinefnunum.

 

Greenfit Clean og næringarþjálfun

Hér hjá okkur í Greenfit bjóðum við upp á ýmis námskeið fyrir þá sem vilja taka heilsuna í gegn og tryggja gott og næringarríkt mataræði.

Má þar nefna Greenfit Clean þar sem við tvinnum saman mataræði og bætiefni til að ná sem bestum árangri á 3 vikum. Þetta er svolítið eins og að gera góða hreingerningu og svo skiptir auðvitað máli hvað við gerum í framhaldi af þessu, hvernig við ætlum að viðhalda árangrinum. Grunnhugsunin er sú að við borðum óunna fæðu svo sem grænmeti, kjöt og fisk ásamt því að taka inn góð bætiefni. Í þessari hreinsun sleppum við allri sætu, kornvörum, kúamjólkurvörum og koffíni og lærum að meta áhrif þessara breytinga á eigin skinni.

Ef þú vilt persónulegri nálgun þá mælum við með næringarþjálfun Greenfit. Næringarþjálfunin virkar þannig að þú segir okkur frá markmiðum þínum og áherslum í mataræði og við sérsníðum matseðil og hjálpum þér að ná árangri. Ef þú átt niðurstöður úr blóð- og/eða efnaskiptamælingu þá tökum við mið af niðurstöðum mælinganna við gerð matseðilsins.

Þú færð einnig fróðleik, hugmyndir og leiðbeiningu skref fyrir skref sem hjálpa þér af stað og leiðbeina með hvernig þú getur svo haldið áfram á eigin vegum þegar ráðgjöfinni lýkur.


Hinir fjölmörgu ávinningar af kuldameðferð